Lög og aðalfundur

Lög og aðalfundur

Aðalfundur FHR

Aðalfund skal halda fyrir lok apríl mánaðar ár hvert. Til fundarins skal boða skriflega með minnst 10 daga fyrirvara. Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins skriflega með a.m.k. fimm daga fyrirvara fyrir boðaðan aðalfund.

Dagskrá:
 1. Skýrsla stjórnar.
 2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
 3. Skýrslur nefnda.
 4. Ákvörðun félagsgjalda
 5. Kosningar. (sbr. 4. gr.)
 6. Kosning trúnaðarmanns FHR.
 7. Önnur mál.

Kaffi og meðlæti í boði stjórnar.

Lög FHR - Félags heilbrigðisritara

1. grein. Nafn, kennitala, lögheimili og varnarþing félagsins
Félagið heitir. Félag heilbrigðisritara skammstafað FHR. Félagssvæðið er allt landið. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein. Tilgangur félagsins
Tilgangur félagsins er að efla samvinnu og samstarf félagsmanna, bæta þekkingu og hag þeirra eftir því sem við verður komið. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því m.a.

 1. Að allir heilbrigðisritarar sem fullnægja settum skilyrðum verði félagar í félagi FHR.
 2. Að vernda réttindi félagsmanna og vinna að kjarabótum.
 3. Að stuðla að aukinni menntun félagsmanna, framþróun í námsskrá heilbrigðisritara og tryggja að námið sé alltaf fullnægjandi og í takt við kröfur tímans.
 4. Að auka kynni og samheldni meðal félagsmanna.

3. grein. Réttur til aðildar að félaginu
Rétt til fullrar aðildar að félagi heilbrigðisritara hafa þeir sem útskrifast sem heilbrigðisritarar samkvæmt námskrá á hverjum tíma og starfa fyrir heilbrigðisstéttir. 

 1. Enginn verður sjálfkrafa félagi. Starfandi heilbrigðisritarar geta sótt um inngöngu í félagið til stjórnar og skal það gert skriflega. Það sama gildir um úrsögn félagsmanna úr félaginu. 
 2. Kjörgengi og kosningarétt hafa þeir einir sem eru fullgildir félagar, greitt hafa félagsgjöld og eru skuldlausir við félagið . Félagar falla sjálfkrafa út ef þeir hafa eigi greitt félagsgjöld síðastliðin 2 ár. 
 3. Aðeins fullgildir félagar geta tekið að sér trúnaðarstörf fyrir félagið.
 4. Þá hafa fullan rétt í félaginu þeir fullgildu félagar sem látið hafa af störfum vegna aldurs.

4. grein. Stjórn félagsins
Stjórn félagsins skipa 5 fullgildir félagsmenn sem kosnir eru á aðalfundi félagsins til tveggja ára í senn. Kosinn skal formaður félagsins og 4 meðstjórnendur. Stjórnin skal skipta með sér verkum sem hér segir: Varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Einnig skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga fyrir aðalfund.

5. grein. Málefni félagsins hverju sinni
Stjórn félagsins hefur æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Stjórnin skal framkvæma ákvarðanir sem teknar eru á aðalfundi og/eða sjá til þess að þær séu framkvæmdar einnig er hún málsvari félagsins út á við. Stjórn félagsins skal boða aðalfundi og félagsfundi. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meiri hluti stjórnar mætir. Formaður skal stýra fundum félagsins öðrum en aðalfundum en þá skal skipaður sérstakur fundarstjóri. Heimilt er formanni þó að skipa sérstakan fundarstjóra á öðrum fundum. Fundarstjóri úrskurðar um ágreining um fundarsköp.

Ritari skal halda gerðarbók um aðal-, félags- og stjórnarfundi. Þá skal hann halda félagaskrá. Gjaldkeri skal annast sjóðgæslu félagsins og hefur umsjón með fjármálum þess. Hætti stjórnarmaður á kjörtímabilinu er stjórninni heimilt að kalla til félagsmann í stjórn fram að næsta aðalfundi. Hætti formaður tekur varaformaður sæti formanns fram að næsta aðalfundi.

6. grein. Aðalfundur

Aðalfund skal halda fyrir lok apríl mánaðar ár hvert. Til fundarins skal boða skriflega með minnst 10 daga fyrirvara. Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins skriflega með a.m.k. fimm daga fyrirvara fyrir boðaðan aðalfund.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

 1. Skýrsla stjórnar.
 2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
 3. Skýrslur nefnda.
 4. Lagabreytingar.
 5. Ákvörðun félagsgjalda.
 6. Kosningar. (sbr. 4. gr.)
 7. Önnur mál

7. grein. Reikningsár félagsins
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Ákvörðun félagsgjalda gildir fyrir almanaksárið.

8. grein. Félagsfundir

Félagsstjórn boðar til fundar í félaginu þegar hún sér ástæðu til. Stjórn félagsins er skylt að boða félagsfund ef a.m.k. 1/4 fullgildir félagsmanna óski þess, enda tilgreini þeir efni fundarins. Félagsfund skal boða með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara.
Félagsfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

9. grein. Nefndir

Á félagsfundum og aðalfundi er heimilt að kjósa í nefndir til að fjalla um ákveðin málefni í samráði við félagsstjórn. Stjórninni er einnig heimilt að kalla menn sér til aðstoðar í einstökum málum.

10. grein. Gildistími laga
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda sé breytingin samþykkt með 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna.

11. grein. Félagsslit

Félaginu verður aðeins slitið á löglega boðuðum aðalfundi.Tillaga um slit félagsins skal berast stjórn félagsins fyrir 15. mars. Telst hún aðeins samþykkt ef 2/3 fullgildra félagsmanna greiði tillögunni atkvæði sitt. Við boðun aðalfundar skal tillagan kynnt. Verði félaginu slitið renna eignir þess til líknarmála.

Félaginu voru upphaflega sett lög á stofnfundi 31. maí 2005. Lögunum hefur verið breytt á aðalfundum félagsins 2007, 2011 og 2017.